á móti sól
Þraukað í þrjátíu ár
Þegar Liverpool varð síðast meistari, vorið 1990, var ekkert sem benti til þess að 30 ár myndu líða þar til liðið ynni deildina aftur. Liðið var frábært, stjórinn frábær og sigurhefðin rík. En smám saman fór að syrta í álinn.
Hér verður litið yfir það helsta sem hefur gerst frá því í maí 1990, hjá Liverpool, á Íslandi og annarsstaðar í heiminum.
1990-1991
Liverpool leiddi deildina lengi vel, en í febrúar 1991 sagði Kenny Dalglish starfi sínu lausu af persónulegum ástæðum. Ronnie Moran stjórnaði liðinu fram í miðjan apríl þegar Graeme Souness var ráðinn framkvæmdastjóri. Fram að afsögn Dalglish hafði liðið einungis tapað tveimur leikjum í deildinni, en eftir brotthvarf hans missti liðið flugið og tapaði 6 af síðustu 14 leikjum í deildinni og datt að auki úr FA bikarnum. Liverpool endaði í 2. sæti með 76 stig en Arsenal varð meistari með 83 stig.
Markahæsti leikmaður: Ian Rush með 26 mörk, þar af 16 í deild.
Annað markvert:
-hjá Liverpool:
-
Alan Hansen lagði skóna á hilluna
-
Steve McManaman lék sinn fyrsta leik með aðalliðinu
-á Íslandi:
-
Björk gaf út Gling Gló
-
Stebbi og Eyfi sungu um Nínu í Eurovision
-annars staðar í heiminum:
-
Austur- og Vestur Þýskaland urðu eitt ríki
-
Milli Vanilli urðu að skila Grammy verðlaununum sínum
-
Dances with Wolves fékk 7 Óskarsverðlaun
1991-1992
Fyrsta heila tímabil Souness með Liverpool endaði liðið í 6. sæti í deildinni með 64 stig. Lélegasti árangur félagsins í áraraðir og Í fyrsta sinn frá árinu 1981 sem liðið endaði ekki í 1. eða 2. sæti deildarinnar.
Souness gekkst undir vel heppnaða hjartaaðgerð í apríl 1992 og fagnaði batanum og sigri á Portsmouth í undanúrslitum FA bikarsins með einkaviðtali við The Sun sem birtist 15. apríl, sléttum þremur árum eftir Hillsborough harmleikinn. Það varð ekki til að auka vinsældir Skotans.
Leeds vann deildina með 82 stig, en Liverpool vann FA bikarinn með sigri á 2. deildarliði Sunderland í úrslitaleik á Wembley. Leikurinn endaði 2-0 og mörkin skoruðu Ian Rush og Michael Thomas.
Markahæsti leikmaður: Dean Saunders með 23 mörk, þar af 10 í deildinni.
Annað markvert:
-hjá Liverpool:
-
Peter Beardsley var seldur til Everton þar sem hann skoraði 20 mörk
-
Dean Saunders var keyptur fyrir metfé (2,9 milljónir punda)
-
Liverpool keppti á ný í Evrópukeppni, eftir 6 ára bann í kjölfar Heysel slyssins
-á Íslandi:
-
Ísland varð heimsmeistari í bridge
-
Magnús Ver tók við af Jóni Páli sem sterkasti maður heims
-annars staðar í heiminum:
-
Fyrsta vefsíðan fór í loftið
-
Hummer bílarnir komu á markað
-
Freddie Mercury lést úr eyðni
1992-1993
Ekki tók betra við á öðru tímabili Souness. Liðið hafnaði aftur í 6. sæti, en nú með einungis 59 stig. Liðið var í tómu basli og stundum nálægt því að lenda í fallbaráttu. Á lokavikunum rofaði þó aðeins til þegar liðið vann sig upp úr 15. sæti í það sjötta.
Þarna var Úrvalsdeildin orðin til og það var ekki til að bæta geð stuðningsmanna Liverpool að Manchester United varð fyrst liða til að vinna þá deild, en liðið hafði þá ekki orðið meistari í 26 ár.
Markahæsti leikmaður: Ian Rush með 22 mörk, þar af 14 í deildinni.
Annað markvert:
-hjá Liverpool:
-
Í október 1992 varð Ian Rush markahæsti leikmaður í sögu Liverpool, þegar hann skoraði sitt 287. mark fyrir félagið
-á Íslandi:
-
Sophia Hansen sá Dagbjörtu og Rúnu í fyrsta sinn í 20 mánuði
-
Ísland gekk í EES
-
Þorgrímur Þráinsson lagði takkaskóna á hilluna
-annars staðar í heiminum:
-
Fyrstu sms skilaboð sögunnar voru send
-
Whitney Houston og Kevin Costner léku saman í The Bodyguard
-
Fyrsti nikótínplásturinn kom á markaðinn
1993-1994
Liverpool endaði leiktíðina í 8. sæti með 60 stig. Enn ein hörmungin eftir brotthvarf King Kenny og brúnin á stuðningsmönnum farin að þyngjast all verulega. Liðið byrjaði að vísu vel og var í toppbaráttunni allan ágústmánuð, en tapaði síðan öllum leikjum sínum í september. Um áramótin var Liverpool í 8. sæti, 20 stigum á eftir Manchester United, og pressan á Souness orðin veruleg.
Markahæsti leikmaður: Ian Rush með 19 mörk, þar af 14 í deildinni
Annað markvert:
-hjá Liverpool:
-
Eftir tap gegn 2. deildarliði Bristol City í FA bikarnum 25. janúar lauk samstarfi Souness og Liverpool loksins og Roy Evans tók við liðinu
-
Bruce Grobbelaar og Ronnie Whelan léku sinn síðasta leik fyrir félagið
-
Hinn 18 ára gamli Robbie Fowler lék sinn fyrsta leik fyrir aðalliðið í september og byrjaði með látum. Skoraði eitt mark í fyrsta leiknum og fimm stykki í þeim næsta! Þrátt fyrir að ökklabrot í janúar héldi honum á hliðarlínunni í hartnær
2 mánuði endaði hann tímabilið með heil 18 mörk og var fljótlega kominn í guðatölu hjá stuðningsmönnum
-á Íslandi:
-
Magnús Scheving varð Evrópumeistari í þolfimi
-
McDonalds opnaði með miklum látum
-annars staðar í heiminum:
-
Evrópusambandið var stofnað
-
Michael Jordan hætti í körfubolta í fyrsta sinn af þremur
-
Tonya Harding fékk mann til að fótbrjóta Nancy Kerrigan
til að minnka samkeppnina á ÓL í Lillehammer
1994-1995
Á þessu fyrsta heila tímabili Roy Evans með liðið sáust strax nokkur batamerki. Liðið gat á góðum degi unnið hvaða lið sem er, en stöðugleikann vantaði. Kunnuglegt stef.
Liverpool vann Bolton 2-1 í úrslitaleik deildabikarsins á Wembley. Steve McManaman skoraði bæði mörkin.
Í deildinni náði Liverpool fjórða sæti, með 74 stig, en Blackburn undir stjórn Kenny Dalglish varð meistari með 89 stig.
Markahæsti leikmaður: Robbie Fowler með 31 mark, þar af 25 í deildinni.
Annað markvert:
-hjá Liverpool:
-
Skemmtilegasta atvik þessarar leiktíðar var þegar Robbie Fowler skoraði þrennu gegn Arsenal á fjórum og hálfri mínútu. Það var „fljótasta þrennan“ í Úrvalsdeild allt þar til að Sadio Mané sló metið með Southampton 2015
-
Goðsögnin Steve Nicol kvaddi félagið í janúar eftir 13 ár og 468 leiki
-á Íslandi:
-
Mannskætt snjóflóð féll á Súðavík í janúar 1995
-
Helgi Áss Grétarsson varð heimsmeistari U-20 í skák
-
Póstur og sími opnaði fyrsta GSM netið á Íslandi
-annars staðar í heiminum:
-
Yahoo leitarvélin varð til
-
Fyrsti þátturinn af Friends fór í loftið
-
PlayStation leikjatölvan leit dagsins ljós
1995-1996
Roy Evans keypti Stan Collymore fyrir metfé um sumarið og væntingarnar voru miklar. Liðið spilaði á köflum frábæran fótbolta með Collymore, Fowler, Redknapp og McManaman í broddi fylkingar, en sveiflurnar voru áfram of miklar. Liðið endaði í 3. sæti í deildinni og komst í úrslit FA bikarsins. Þess leiks er því miður fyrst og fremst minnst vegna kremuðu Armani jakkafatanna sem leikmenn Liverpool klæddust fyrir leik, en þar festist Spice Boys viðurnefnið endanlega við ákveðna leikmenn.
Markahæsti leikmaður: Robbie Fowler með 36 mörk, þar af 28 í deildinni.
Annað markvert:
-hjá Liverpool:
-
3. apríl 1996 mættust Liverpool og Newcastle í einum allra skemmtilegasta knattspyrnuleik 10. áratugarins. Liverpool vann 4-3 með tveimur mörkum frá Fowler og tveimur frá Collymore
-
Rétt rúmum mánuði síðar skoraði Ian Rush sitt síðasta mark fyrir Liverpool, en þau urðu samtals 346
-á Íslandi:
-
Mannskætt snjóflóð féll á Flateyri í október 1995
-
Tímaritið Séð og Heyrt kom út í fyrsta sinn.
-annars staðar í heiminum:
-
Windows ´95 var heitasta stýrikerfið í heiminum
og Internet Explorer heitasti vafrinn -
Motorola setti fyrsta samlokusíma sögunnar á markað
-
DVD diskar litu dagsins ljós
-
Fyrsti Pokémon leikurinn varð til
-
Fyrsta myndin sem var að öllu leyti gerð í tölvu (Toy Story) kom út
1996-1997
Liverpool var lengi vel í toppbaráttunni og var með fimm stiga forystu á toppi deildarinnar um áramót. Eftir áramót glutraði liðið forystunni niður og Manchester United varð meistari með 75 stig. Liverpool endaði í 4. sæti með 68 stig.
Markahæsti leikmaður: Robbie Fowler með 31 mark, þar af 18 í deildinni.
Annað markvert:
-hjá Liverpool:
-
Michael Owen og Jamie Carragher léku með aðalliðinu í fyrsta sinn
-á Íslandi:
-
Brúin yfir Gígjukvísl á Skeiðarársandi eyðilagðist í miklum flóðum
-
Flutningaskipið Vikartindur strandaði í Háfsfjöru
-
Ólafur Ragnar Grímsson var kjörinn forseti Íslands
í fyrsta sinn af mörgum
-annars staðar í heiminum:
-
Tupac Shakur var myrtur
-
Lisa Marie Presley og Michael Jackson skildu
eftir 18 mánaða hjónaband -
Nintendo 64 kom á markað
1997-1998
Síðasta heila tímabil Roy Evans var keimlíkt þeim fyrri. Liðið spilaði oftast ótrúlega skemmtilegan bolta, en varnarleikur og markvarsla var í skrautlegri kantinum og stöðugleikinn enginn. Til marks um það voru fjórir mánuðir liðnir af leiktíðinni þegar liðið vann loks tvo leiki í röð. Of margir leikmenn gerðu sig seka um barnaleg mistök æ ofan í æ og árangurinn var eftir því. Það hjálpaði heldur ekki til að Robbie Fowler var lengi frá vegna meiðsla. Liðið endaði í 3. sæti deildarinnar með 65 stig, 13 stigum á eftir meisturum Arsenal.
Markahæsti leikmaður: Michael Owen með 23 mörk, þar af 18 í deildinni.
Annað markvert:
-hjá Liverpool:
-
Paul Ince var keyptur frá Inter um sumarið til þess að
þétta liðið og berja smá hörku í það, en það dugði ekki til
-á Íslandi:
-
Vala Flosadóttir setti heimsmet í stangarstökki innanhúss
-
Halldór Laxness lést
-
Haukur Ingi Guðnason komst á samning hjá Liverpool
-annars staðar í heiminum:
-
Díana prinsessa lést í bílsslysi
-
Titanic fékk 11 Óskarsverðlaun
-
Bill Clinton harðneitaði að hafa verið að fikta við Monicu Lewinsky
-
Fyrsta Viagra pillan var seld á almennum markaði
1998-1999
Þetta var tímabil mikilla umbreytinga. Gérard Houllier var ráðinn til að stjórna liðinu við hlið Roy Evans, en það samstarf gekk ekki upp og Evans steig til hliðar í nóvember. Liverpool náði aldrei neinu flugi og endaði í 7. sæti deildarinnar með 54 stig, sem var lægsta stigasöfnun félagsins í áraraðir.
Markahæsti leikmaður: Michael Owen með 23 mörk, þar af 18 í deildinni.
Annað markvert:
-hjá Liverpool:
-
Steve McManaman fór á frjálsri sölu til Real Madrid í lok tímabilsins
-
Hinn ungi Steven Gerrard lék sinn fyrsta leik með aðalliðinu
-á Íslandi:
-
Háhyrningurinn Keiko kom með flugi til Vestmannaeyja
-
Selma Björns söng All out of luck í Eurovision
-
Skjár 1 hóf útsendingar
-annars staðar í heiminum:
-
Michael Jordan lagði körfuboltaskóna á hilluna í annað sinn á ferlinum
-
Google leitarvélin fór í loftið
-
Danski skapgerðarleikarinn Ole Søltoft lést langt fyrir aldur fram
-
Britney Spears gaf út sinn fyrsta smell
1999-2000
Gérard Houllier losaði sig við haug af leikmönnum um sumarið og keypti 8 í staðinn. Þar á meðal Sami Hyypiä og Stephane Henchoz, sem mynduðu sterkasta miðvarðapar Liverpool í langan tíma. Sóknin gekk hinsvegar alls ekki vel og til að ráða bót á því reiddi Houllier fram 11 milljónir punda fyrir Emile Heskey í mars, en það var þá hæsta upphæð sem Liverpool hafði nokkru sinni greitt fyrir leikmann. Liverpool endaði í 4. sæti deildarinnar með 67 stig, 24 stigum á eftir meisturum Manchester United.
Markahæsti leikmaður: Michael Owen með 12 mörk, þar af 11 í deildinni.
Annað markvert:
-hjá Liverpool:
-
Eitt eftirminnilegasta atvik tímabilsins var þegar Titi Camara skoraði sigurmarkið gegn West Ham á Anfield, morguninn eftir að faðir hans dó. Camara kraup á kné fyrir framan Anfield Road stúkuna og réð ekki við tárin. Afskaplega falleg minning
-á Íslandi:
-
KR varð Íslandsmeistari í knattspyrnu karla eftir 31 árs bið
-
Hekla gaus
-
Mick Jagger spókaði sig í blíðunni á Ísafirði
-
Guðjón Þórðarson var ráðinn knattspyrnustjóri Stoke
-annars staðar í heiminum:
-
Gwyneth Paltrow skældi af innlifun þegar hún fékk Óskarsverðlaun
-
Heimurinn var á barmi taugaáfalls vegna hins yfirvofandi 2000 vanda
2000-2001
Besta leiktíð Liverpool frá því að Dalglish kvaddi félagið. Í deildinni endaði liðið í 3. sæti með 69 stig, en Houllier leiddi liðið til sigurs í þremur öðrum keppnum; UEFA keppninni, Deildabikarnum og FA bikarnum. Fyrsti bikarinn kom í hús í lok febrúar þegar Liverpool vann Middlesboro eftir vítakeppni í úrslitum Deildabikarsins. Næsti bikar kom 12. maí þegar Michael Owen skoraði bæði mörk Liverpool í 2-1 sigri á Arsenal í úrslitum FA bikarsins. Aðeins fjórum dögum síðar var svo komið að úrslitaleiknum í UEFA keppninni gegn spænska liðinu Alavés, en sá leikur var ótrúlega viðburðaríkur. Til að gera langa sögu stutta vann Liverpool leikinn á sjálfsmarki frá Alavés í framlengingu.
Markahæsti leikmaður: Michael Owen með 24 mörk, þar af 16 í deildinni.
Annað markvert:
-hjá Liverpool:
-
Það kom mörgum á óvart þegar hinn 36 ára gamli Gary McAllister gekk til liðs við félagið í júlí 2000. Gamla kempan reyndist magnaður liðsstyrkur og átti stóran þátt í velgengni liðsins
-á Íslandi:
-
Bókin um Svínahirðinn sló í gegn
-
Djúpa Laugin var einn vinsælasti sjónvarpsþáttur landsins
-
Árni Johnsen var heilmikið að braska í Byko
-
Angel, framlag Íslendinga í Eurovision, nældi sér í 3 stig á Parken í Kaupmannahöfn. Geri aðrir betur
-annars staðar í heiminum:
-
Tiger Woods varð fyrsti kylfingurinn í tæp 50 ár til að vinna þrjú risamót í röð
-
Wikipedia vefsíðan var opnuð almenningi
-
Tom Cruise og Nicole Kidman skildu
-
Teiknimyndin Shrek var frumsýnd
2001-2002
Miklar vonir voru bundnar við gengi Liverpool, eftir þrennutímabilið. Liðið byrjaði ágætlega, en eftir einungis sex umferðir í deildinni varð Houllier að taka sér fimm mánaða frí vegna hjartavandræða. Phil Thompson stýrði liðinu frá október og fram í mars. Þrátt fyrir veikindi Houlliers gekk liðinu ágætlega, var lengi vel í toppbaráttu og endaði í 2. sæti með 80 stig, 7 stigum á eftir Arsenal.
Markahæsti leikmaður: Michael Owen með 28 mörk, þar af 19 í deildinni.
Annað markvert:
-hjá Liverpool:
-
Houllier kom mörgum á óvart í lok ágúst þegar hann samdi við tvo öfluga markmenn sama daginn, en þá var þolinmæði Frakkans gagnvart Sander Westerveld endanlega á þrotum. Þetta voru þeir Jerzy Dudek og Chris Kirkland
-
Í nóvember 2001 var Robbie Fowler seldur til Leeds, við litla hrifningu stuðningsmanna Liverpool
-á Íslandi:
-
Bílaeltingaleikur James Bond í Die Another Day var tekinn upp á Jökulsárlóni
-
Mikið Harry Potter æði geysaði um allt land
-
Lög um handfrjálsan búnað undir stýri tóku gildi
-
Smáralindin opnaði 10.10.10 kl.10.10
-annars staðar í heiminum:
-
Flugvélum var flogið á Tvíburaturnana í New York
-
Fyrsti I-podinn kom á markað
-
Astrid Lindgren lést
-
Halle Berry varð fyrsta litaða konan til að fá Óskarsverðlaun fyrir besta leik í aðalhlutverki
2002-2003
Tímabilið þar sem allt átti loksins að smella. Liðið hafði verið á góðu flugi tvær síðustu leiktíðir, Houllier orðinn heill heilsu og búinn að finna næsta Zidane í Bruno Cheyrou og fjárfesta í tveimur Senegölum sem slógu í gegn á HM um sumarið. Enginn þessara leikmanna stóð þó undir væntingum og tímabilið var hrein og klár vonbrigði. Liverpool byrjaði reyndar með látum og var með 4 stiga forystu á toppnum í byrjun nóvember, en frá 9. nóvember fram í miðjan janúar lék liðið 11 leiki í deildinni án þess að vinna! Liðið endaði í 5. sæti með 64 stig, 19 stigum á eftir Manchester United.
Markahæsti leikmaður: Michael Owen með 28 mörk, þar af 19 í deildinni.
Annað markvert:
-hjá Liverpool:
-
Ljósið í myrkrinu á þessari sveiflukenndu leiktíð var sigurinn í Deildabikarnum, en þar lögðu okkar menn Manchester United að velli 2-0 með mörkum frá Gerrard og Owen
-á Íslandi:
-
Hljómsveitin Coldplay hélt tónleika í Laugardalshöll í annað sinn á rúmu ári
-
Ron Jeremy heiðraði Ísland með nærveru sinni
-
Birgitta Haukdal var fulltrúi Íslands í Eurovision
-annars staðar í heiminum:
-
SARS kórónavírusinn dreifði sér um heimsbyggðina
-
Michael Jordan hætti í körfubolta í þriðja og síðasta sinn
-
Lose Yourself með Eminem varð fyrsta rapplagið til að vinna Óskarsverðlaun
2003-2004
Síðasta tímabil Gérard Houllier með Liverpool var gallsúrt. Flestir stuðningsmenn höfðu gefist upp á hundleiðinlegum leik liðsins og frammistöðu Frakkans á leikmannamarkaði. Liðið endaði í 4. sæti í deildinni með 60 stig, heilum 30 stigum á eftir meisturum Arsenal. Í lok tímabilsins var Houllier loks látinn taka pokann sinn.
Markahæsti leikmaður: Michael Owen með 19 mörk, þar af 16 í deildinni.
Annað markvert:
-hjá Liverpool:
-
Það lýsir stöðunni á Liverpool liðinu ágætlega að Igor Biscan var í hópi leikjahæstu manna á þessu skelfilega tímabili
-á Íslandi:
-
Leoncie söng Ást á pöbbnum
-
Kalli Bjarni vann Idol
-
Jón Arnór Stefánsson gekk til liðs við Dallas Mavericks í NBA deildinni
-annars staðar í heiminum:
-
Facebook fór í loftið
-
Arnold Schwarzenegger var kjörinn ríkisstjóri Kaliforníu
-
Bandarískir hermenn klófestu Saddam Hussein
-
William Hung sló í gegn í American Idol
2004-2005
Það er óhætt að segja að fyrsta tímabil Rafa Benítez með Liverpool hafi endað með flugeldasýningu. Eftir slakt gengi í deildinni þar sem liðið endaði í 5. sæti með 58 stig og tap fyrir Chelsea í úrslitum Deildabikarsins lá leiðin í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í Istanbul. Þeim leik gleymum við aldrei.
Markahæstu leikmenn: Milan Baros, Steven Gerrard og Luis Garcia, allir með 13 mörk.
Annað markvert:
-hjá Liverpool:
-
Átta leikmenn bættust við leikmannahópinn á þessari leiktíð. Þeirra á meðal var Xabi Alonso sem er einn besti miðjumaður sem Liverpool hefur átt
-
Fjórir reyndir leikmenn hurfu á braut í staðinn. Mesta eftirsjáin var í Michael Owen, sem hafði verið markahæsti leikmaður liðsins í áraraðir, en hann var seldur til Real Madrid fyrir smáaura í ágúst 2004
-á Íslandi:
-
Bill Clinton fékk sér pylsu á Bæjarins bestu
-
Pink og 50 Cent héldu tónleika í Laugardalshöll
-
Bobby Fischer fékk íslenskan ríkisborgararétt
-
Björk Guðmundsdóttir söng við setningu ólympíuleikanna í Aþenu
-annars staðar í heiminum:
-
YouTube varð til
-
Fyrsti þátturinn af Grey´s Anatomy fór í loftið
-
Benedikt páfi tók við lyklavöldunum í Vatikaninu
2005-2006
Stuðningsmenn Liverpool voru bjartsýnir eftir Istanbul, en því miður var liðið ekki enn orðið nægilega sterkt til að vinna deildina. Framfarirnar voru þó talsverðar frá síðustu mánuðum Houllier með liðið. Liverpool endaði í 3. sæti deildarinnar með 82 stig og vann FA bikarinn í vítakeppni gegn West Ham, þar sem Steven Gerrard skoraði eftirminnilegt mark í uppbótartíma.
Markahæsti leikmaður: Steven Gerrard með 23 mörk, þar af 10 í deildinni.
Annað markvert:
-hjá Liverpool:
-
Það sáust gleðitár á hvörmum margra stuðningsmanna í janúar 2006, þegar Robbie Fowler sneri aftur á Anfield eftir fimm ára útlegð
-á Íslandi:
-
Blár Opal hvarf af markaði við mikla sorg
-
Sylvía Nótt keppti í Eurovision
-
Unnur Birna Vilhjálmsdóttir var kjörinn Ungfrú Heimur
-annars staðar í heiminum:
-
Fellibylurinn Katrina olli gríðarlegu tjóni í New Orleans
-
Spotify var stofnað
-
Brokeback Mountain var frumsýnd
-
Luciano Pavarotti söng opinberlega í síðasta sinn
2006-2007
Liverpool komst í úrslit Meistaradeildarinnar í annað sinn á þremur árum, en árangur liðsins í Úrvalsdeild lét á sér standa. Liðið endaði í 3. sæti með 68 stig, sem var fjórtán stiga afturför frá leiktíðinni á undan. Aukinheldur var leikur liðsins ekki mikið fyrir augað, markaskorun var í lágmarki og stuðningsmenn farnir að setja spurningamerki við metnað Benítez til að ná árangri heima fyrir.
Markahæsti leikmaður: Peter Crouch með 18 mörk.
Annað markvert:
-hjá Liverpool:
-
Liverpool vann Chelsea 2-1 í leiknum um Góðgerðaskjöldinn með mörkum Peter Crouch og John Arne Riise
-
Hápunktur tímabilsins var að komast í úrslitaleikinn í Meistaradeildinni gegn AC Milan, en þar náði ítalska liðið því miður að koma fram hefndum frá því í Istanbul. Lokatölur urðu 2-1
-á Íslandi:
-
Magni Ásgeirsson keppti í Rockstar Supernova
-
Landsbankinn fór af stað með Icesave í Bretlandi
-
Bygging Hörpu hófst formlega
-
Meðferðarheimilinu Byrginu var lokað eftir að hneykslismál tengt starfseminni kom upp
-annars staðar í heiminum:
-
Julian Assange stofnaði WikiLeaks
-
Nintendo Wii kom út
-
Saddam Hussein var tekinn af lífi
2007-2008
Liverpool náði 4. sæti í deildinni með 76 stig. Fernando Torres fór á kostum á sinni fyrstu leiktíð fyrir félagið og skoraði 33 mörk í öllum regnbogans litum. Torres og Gerrard náðu strax vel saman og framtíðin virtist loksins dálítið björt. Á þessum tímapunkti var þó farið að bera á brasi hjá eigendum félagsins, Gillett og Hicks, sem ekki verður farið nánar útí hér.
Markahæsti leikmaður: Fernando Torres með 33 mörk, þar af 24 í deild.
Annað markvert:
-hjá Liverpool:
-
Einn magnaðasti leikur tímabilsins var 8-0 sigur á Besiktas í Meistaradeildinni, en það var á þeim tíma stærsti sigur sem unnist hafði í keppninni
-á Íslandi:
-
Sjónvarpsþættirnir Næturvaktin nutu mikilla vinsælda
-
ÍNN hóf útsendingar
-
Kárahnjúkavirkjun var gangsett
-
Yoko Ono afhjúpaði friðarsúluna í Viðey
-annars staðar í heiminum:
-
Fidel Castro lét af embætti forseta Kúbu
-
Breaking Bad og Big Bang Theory þættirnir hófu göngu sína
-
Elísabet önnur varð elsti þjóðhöfðingi í sögu Bretlands
2008-2009
Leiktíðin sem Benítez komst næst því að vinna deildina. Liverpool hafði fjögurra stiga forskot um áramót, en í janúar og febrúar vann liðið einungis tvo leiki í deildinni sem reyndist dýrkeypt. Liverpool endaði í 2. sæti með 86 stig, fjórum stigum á eftir Manchester United. Mjög góð stigasöfnun, sem oft hefði dugað til sigurs í deildinni.
Markahæsti leikmaður: Steven Gerrard með 24 mörk, þar af 16 í deild.
Annað markvert:
-hjá Liverpool:
-
Tveir leikir standa upp úr í minningunni; 4-1 sigur á Manchester United á Old Trafford og 4-0 sigur á Real Madrid á Anfield
-
Undarlegustu leikmannaviðskipti leiktíðarinnar voru kaupin og salan á Robbie Keane, en hann var keyptur á 19 milljónir frá Tottenham í lok júlí og seldur til Tottenham á 12 milljónir hálfu ári síðar
-á Íslandi:
-
Geir Haarde bað Guð að blessa Ísland
-
Bjarni Harðarson fór á kostum í tölvupóstsendingum
-
Jóhanna Guðrún varð í 2. sæti í Eurovision
-
Ísland var „stórasta land í heimi“ eftir að „strákarnir okkar“ unnu til silfurverðlauna á ÓL í Peking
-annars staðar í heiminum:
-
Barack Obama var kjörinn forseti Bandaríkjanna
-
Bill Gates hætti sem forstjóri Microsoft
-
Fyrsta Hunger Games bókin kom út
-
AirBnB var stofnað
2009-2010
Síðasta leiktíð Benítez með liðið var ein samfelld sorgarsaga. Eigendurnir voru í tómu rugli, liðið spilaði illa, andleysið hrjáði meira að segja Steven Gerrard og Benítez virtist ráðþrota.
Liðið endaði í 7. sæti í deildinni með 63 stig, datt út í FA bikarnum fyrir Reading í janúar og frammistaðan ekki boðleg á neinum vígstöðvum. Svo fór að leiðir Benítez og Liverpool skildu í lok tímabilsins.
Markahæsti leikmaður: Fernando Torres með 22 mörk, þar af 18 í deild.
Annað markvert:
-hjá Liverpool:
-
Darren Bent tryggði Sunderland sjaldgæfan sigur á Liverpool með skrautlegasta marki allra tíma, þegar hann skaut boltanum í sundbolta og þaðan í markið. Lýsandi fyrir þessa lánlausu leiktíð
-
Xabi Alonso og Sami Hyppiä léku sína síðustu leiki fyrir Liverpool
-á Íslandi:
-
McDonalds hætti starfsemi
-
Ólafur Ragnar Grímsson vísaði lögum um Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslu
-
Gos í Eyjafjallajökli setti flugsamgöngur á hliðina
-
Íslenska karlalandsliðið í handbolta fékk brons á EM í Austurríki
-annars staðar í heiminum:
-
Fólk plankaði um víða veröld
-
Modern Family hóf göngu sína
-
Fyrsti I-padinn leit dagsins ljós
-
Hæsta bygging veraldar, Burj Khalifa í Dubai, var opnuð
2010-2011
Roy Hodgson stjórnaði liðinu hálfa leiktíðina með afar slöppum árangri, sem enginn nennir að rifja upp. Félagið var illa statt fjárhagslega, leikmannahópurinn ekki nógu góður og árangurinn eftir því. Stuðningsmenn voru farnir að baula á liðið og í byrjun janúar tilkynntu nýir eigendur félagsins um brottrekstur Hodgson. Sjálfur Kenny Dalglish tók við liðinu út tímabilið og sigurhlutfallið fór úr 35% í 55%. Liðið endaði í 6. sæti með 58 stig.
Markahæsti leikmaður: Dirk Kuyt með 15 mörk, þar af 13 í deild.
Annað markvert:
-hjá Liverpool:
-
Janúar var með fjörugri mánuðum í sögu félagsins. King Kenny tók við liðinu, Fernando Torres var seldur til Chelsea og Andy Carroll var keyptur fyrir metfé
-
Kaupin á Carroll reyndust ekkert sérstök, en kaupin á Luis Suarez fyrir töluvert lægri upphæð verða að teljast ein sú allra bestu. Án efa einn allra hæfileikaríkasti leikmaður sem hefur klæðst Liverpool treyjunni
-á Íslandi:
-
Menningarhúsið Hof var opnað á Akureyri
-
Héðinsfjarðargöng voru vígð
-
Gerpla vann EM í fimleikum
-annars staðar í heiminum:
-
Bandarískir hermenn réðu Osama Bin Laden af dögum
-
Vilhjálmur Prins og Kate Middleton gengu í hjónaband
-
Fyrsti þátturinn af Game of Thrones fór í loftið
-
Instagram varð til
2011-2012
Kenny Dalglish stjórnaði Liverpool eina leiktíð til viðbótar. Einn bikar kom í hús, sá fyrsti síðan 2006, þegar Liverpool vann Cardiff í úrslitum Deildabikarsins. Liðið komst einnig í úrslit FA bikarsins, en tapaði fyrir Chelsea. Í deildinni var árangurinn hinsvegar slakur. Niðurstaðan varð 8 sæti og 62 stig, en Manchester City vann deildina í fyrsta sinn. Í lok leiktíðar komust FSG og Dalglish að samkomulagi um starfslok.
Markahæsti leikmaður: Luis Suarez með 17 mörk, þar af 11 í deild.
Annað markvert:
-hjá Liverpool:
-
Leiðinlega mikið púður fór í deilur Luis Suarez og Patrice Evra. Suarez fékk 8 leikja bann fyrir meint kynþáttaníð og neitaði svo að taka í hönd Evra í öðrum leik sínum eftir bannið. Eftir sigur United í þeim leik fagnaði Evra eins og fífl beint fyrir framan Suarez og allt varð meira og minna vitlaust. Þetta mál var hundleiðinlegt og tók mikla orku frá bæði Dalglish og leikmönnunum. Fyrir utan þá augljósu staðreynd hversu dýrt það var að missa Suarez í svo langan tíma
-á Íslandi:
-
Annie Mist Þórisdóttir varð heimsmeistari í CrossFit
-
Anna Mjöll (41) og Cal Worthington (91) skildu eftir 9 mánaða hjónaband
-
Wow Air var stofnað
-
Atriði úr Game of Thrones voru tekin upp við Vatnajökul og Svínafellsjökul
-annars staðar í heiminum:
-
One Direction gáfu út sína fyrstu plötu
-
Snapchat fór í loftið
-
Kim Jong-il og Whitney Houston létust
-
Tölvuleikurinn Minecraft kom út í fullri útgáfu
2012-2013
Fyrsta leiktíð Brendan Rodgers með Liverpool var ekki sannfærandi. Hann virtist oft númeri of lítill fyrir klúbbinn, en það má heldur ekki líta framhjá því að á þessum tíma var leikmannahópur Liverpool sömuleiðis a.m.k. einu númeri of lítill. Vinningshlutfallið fram að áramótum var á pari við Roy Hodgson, en eftir áramót hækkaði það í 50%. Liðið endaði í 7. sæti Úrvalsdeildar með 61 stig og datt fljótlega úr öllum keppnin.
Markahæsti leikmaður: Luis Suarez með 30 mörk, þar af 23 í deild.
Annað markvert:
-hjá Liverpool:
-
Í janúar komu Daniel Sturridge og Philippe Coutinho fyrir samtals rétt rúmar 20 milljónir punda, sem verður að teljast góður díll
-
Andy Carroll var seldur til West Ham fyrir rúmar 15 milljónir
-
Jamie Carragher lék sinn síðasta leik fyrir félagið
-á Íslandi:
-
Vilborg Arna Gissurardóttir gekk á Suðurpólinn
-
Strokufangans Matthíasar Mána var ákaft leitað á Suðurlandi
-
Annie Mist varð heimsmeistari í CrossFit annað árið í röð
-annars staðar í heiminum:
-
Larry Hagman (JR í Dallas) lést
-
Felix Baumgartner rauf hljóðmúrinn í frjálsu falli
-
Lance Armstrong játaði að hafa alltaf verið stútfullur af sterum í Tour De France
-
Tvær sprengjur sprungu í Boston maraþoninu
2013-2014
Lang skemmtilegasta leiktíð Liverpool frá gullöldinni. Liðið spilaði sóknarbolta af bestu gerð og var komið með aðra höndina á dolluna þegar fyrirliðinn datt gegn Chelsea í þriðju síðustu umferð. Luis Suarez, sem virtist á leið til Arsenal í lok sumars, fór á kostum og skoraði 31 mark í deildinni. Daniel Sturridge skoraði 21 og samtals skoraði liðið 101 mark í Úrvalsdeild, sem er það mesta sem lið hefur skorað án þess að vinna deildina. Eftir áramót var liðið taplaust allt þar til í leiknum afdrifaríka gegn Chelsea.
Markahæsti leikmaður: Luis Suarez með 31 mark.
Annað markvert:
-hjá Liverpool:
-
Í lok tímabilsins fékk Jordan Henderson þriggja leikja bann og kannski sást þá í fyrsta sinn hversu mikilvægur hann getur verið fyrir liðið
-á Íslandi:
-
10 þúsund kallinn var settur í umferð
-
Google bíllinn keyrði um landið og tók myndir
-
Vine stjörnurnar Nash Greir og Jerome Jarre gerðu allt vitlaust í Smáralind
-annars staðar í heiminum:
-
Michael Schumacher slasaðist illa á skíðum
-
Flugvél Malasayian Airlines hvarf sporlaust
-
Jimmy Fallon tók við Tonight Show af Jay Leno
-
Bókin I am Malala kom út
2014-2015
Stóra málið fyrir þessa leiktíð var að fylla skarð Luis Suarez sem var seldur til Barcelona í júlí. Það gekk vægast sagt illa og upskeran var samkvæmt því. Liðið endaði í 6. sæti í deildinni með 62 stig og stóð sig afleitlega í Evrópuleikjum. Eftir flugeldasýninguna leiktíðina áður fór markaskorunin niður um nær helming og varla hægt að segja nokkuð jákvætt um leik liðsins.
Markahæsti leikmaður: Steven Gerrard með 13, þar af 9 í deild.
Annað markvert:
-hjá Liverpool:
-
Steven Gerrard lék sinn síðasta leik fyrir félagið gegn Stoke á útivelli í lokaleik tímabilsins. Gerrard skoraði eina mark Liverpool í einu vandræðalegasta tapi sem menn muna eftir. Lokatölur 6-1 fyrir Stoke! Sorglegur endir á ferli eins besta leikmanns í sögu félagsins
-á Íslandi:
-
Eldgos hófst í Holuhrauni
-
Justin Timberlake hélt tónleika í Kórnum
-
Skuldaleiðréttingin var kynnt á fundi í Hörpu
-annars staðar í heiminum:
-
Bandaríkin og Kúba tóku upp stjórnmálasamstarf eftir 52 ára kuldakast
-
Fyrsta Apple úrið kom á markað
-
Fólk hnakkreifst um lit á röndóttum kjól
-
Hryðjuverkaárás var gerð á skrifstofur franska tímaritsins Charlie Hebdo í París
2015-2016
Þann 8. október var Jürgen Klopp ráðinn stjóri félagsins, við mikinn fögnuð stuðningsmanna. Brendan Rodgers var kominn á endastöð með liðið og nú skyldi blaðinu snúið við. Gengi Liverpool á leiktíðinni var æði misjafnt, liðið endaði í 8. sæti deildarinnar með 60 stig en komst í úrslit Deildabikarsins og Evrópudeildarinnar. Báðir úrslitaleikirnir töpuðust.
Markahæsti leikmaður: Daniel Sturridge með 13 mörk
Annað markvert:
-hjá Liverpool:
-
Stuðningsmenn Liverpool munu alltaf minnast fyrsta blaðamannafundar Klopp. Þar hrutu gullkornin af vörum hans í runum og hann hefur verið elskaður og dáður alla tíð síðan
-á Íslandi:
-
Íslenska karlalandsliðið tryggði sér sæti á EM í fótbolta
-
Sigmundur Davíð strunsaði út úr viðtali vegna umfjöllunar um Panamaskjölin
-
Justin Bieber hélt tónleika í Kórnum og tók upp myndband í Fjaðrárgljúfri og víðar
-
Dunkin Donuts opnaði á Laugaveginum
-annars staðar í heiminum:
-
130 manns létust í hryðjuverkaárásum íslamska ríkisins í París
-
NASA fann vatn á Mars
-
Kanye West tilkynnti að hann myndi bjóða sig fram til forseta árið 2020
2016-2017
Fyrsta heila leiktíð Klopp með Liverpool. Um sumarið breyttist hópurinn mikið, Klopp losaði sig við bunka af leikmönnum og fékk nokkra sterka í staðinn, m.a. Mané, Matip og Wijnaldum. Liðið sýndi ágætar framfarir og spilaði mjög vel á köflum, sérstaklega fyrir áramót. Þegar upp var staðið náði liðið hinu dýrmæta 4. sæti með 76 stig. Vinningshlutfallið í deildinni var tæp 58%, sem var framför frá undanförnum árum.
Markahæsti leikmaður: Coutinho með 14 mörk
Annað markvert:
-hjá Liverpool:
-
Ný stúka var tekin í notkun á Anfield
-á Íslandi:
-
Guðni Th. Jóhannesson tók við embætti forseta Íslands
-
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir komst inná LPGA mótaröðina
-
Guðmundur Guðmundsson stýrði danska handboltalandsliðinu til sigurs á ÓL í Brasilíu
-annars staðar í heiminum:
-
Tik Tok fór í loftið
-
Bob Dylan afþakkaði friðarverðlaun Nóbels
-
Donald Trump varð forseti Bandaríkjanna
2017-2018
Ljómandi fín leiktíð, án þess þó að nokkur titill kæmi í hús. Hápunktur tímabilsins var að komast í úrslit Meistaradeildarinnar, en þar tapaði liðið 3-1 fyrir Real Madrid. Hroðaleg mistök Karius og fólskulegt brot Ramos á Salah eru minnisstæðust úr leiknum. Liverpool endaði í 4. sæti í deildinni með 75 stig.
Markahæsti leikmaður: Mohamed Salah með 44 mörk, þar af 32 í deild
Annað markvert:
-hjá Liverpool:
-
Sumarið 2017 voru miklar vangaveltur um framtíð Coutinho, sem sótti það fast að komast til Barcelona. Það frestaðist fram í janúar
-
Liverpool keypti Salah og Oxlade-Chamberlain um sumarið
-
Um jólin var Virgil Van Dijk keyptur fyrir 70 milljónir punda
-á Íslandi:
-
Nýyrðið Epalhommi varð til
-
Karlalandsliðið í fótbolta tryggði sér sæti á HM
-
Magnús Magnús Magnússon fór á kostum í áramótaskaupinu
-annars staðar í heiminum:
-
George Weah varð forseti Líberíu
-
Konur fengu leyfi til að keyra bíl í S-Arabíu
-
Neymar varð dýrasti knattspyrnumaður heims
-
Usain Bolt hljóp sitt síðasta keppnishlaup
2018-2019
Algjörlega stórkostlegt tímabil. Liverpool fór á kostum í deildinni og náði 97 stigum, en það dugði þó ekki til. Hinsvegar fór liðið alla leið í Meistaradeildinni og vann Tottenham 2-0 í úrslitaleik í Madrid. Mörkin komu frá Salah og Origi.
Markahæsti leikmaður: Salah með 27 mörk, þar af 22 í deild.
Annað markvert:
-hjá Liverpool:
-
Loksins, loksins fékk Liverpool heimsklassa markvörð, þegar Alisson kom frá Roma
-
Besta frammistaða liðsins á tímabilinu verður að teljast 4-0 sigurinn á Barcelona á Anfield. Eitt það magnaðasta sem sést hefur í boltanum
-á Íslandi:
-
Wow Air varð gjaldþrota
-
Sólrún Diego hætti á Snapchat
-
Hatari keppti í Eurovision í Ísrael
-annars staðar í heiminum:
-
Kvikmyndin A Star is Born var frumsýnd
-
Bill Cosby varð fyrsti frægi einstaklingurinn sem var dæmdur í fangelsi í kjölfar #MeToo byltingarinnar
-
Phil Mickelson sigraði Tiger Woods í 9 milljón dollara einvígi
-
Eldur kviknaði í Notre Dame kirkjunni í París
2019-2020
MEISTARAR!